Gleraugnagler Print Email

Gleraugnagler (sjóngler)

Hvaða spurningar vakna þegar þú stendur frammi fyrir því að velja þín fyrstu gleraugu? Flestir huga fyrst að umgjörðinni, að hún fari vel og að útlitið falli að kröfum tímans. Auðvitað eru þetta mikilvæg atriði en hvað um glerin? Þau eru þrátt fyrir allt mikilvægasti þáttur gleraugnanna og hafa áhrif á sjón þína.

Næst þegar þú færð þér gleraugu, gefðu þér þá tíma til að ræða við sjóntækjafræðing þinn um það hvaða tegund glerja muni henta þér best til að gleraugun þín verði sem fallegust og þægilegust.

Til eru ótal tegundir glerja og til að auðvelda þér valið kynnum við hér þær algengustu.

Almennt um sjóngler

Optískt gler, öðru nafni sjóngler, er miklu flóknara í framleiðslu en venjulegt gler. Blöndun efna, úrvinnsla þeirra ásamt slípun og fágun ræður eiginleikum glerjanna. Mismunandi gæði þeirra liggja því í nákvæmni á þessum sviðum.

Styrkleiki (ljósbrot) glersins er mældur í dioptríum, og ræðst af yfirborðskúpu og efnasamsetningu glerjanna. Hann hefur töluverð áhrif á þyngd og útlit gleraugnanna. Ef valin er stór umgjörð þýðir það stærra, þykkara og þyngra gler.

Hjá nærsýnu fólki sem valið hefur stóra umgjörð, getur þykkt glersins orðið áberandi í ytri kanti umgjarðar, en hjá þeim fjærsýnu eykst aftur á móti miðjuþykkt glersins.

Vissar skekkjur sem stór gler valda geta einnig orðið til óþæginda, en þær stafa af misjafnri fjarlægð frá gleri að auga.

Plastgler

Í stað sjónglerja úr gleri kjósa margir að velja þau úr plasti. Optísk gæði plastglerja standast á allan hátt samanburð við glerið. Helsti kostur plastsins er sá að það er létt. Þetta hefur mikla þýðingu þegar valdar eru stórar umgjarðir og styrkleiki (glerja) er mikill.

Þeir sem óþægindi hafa af þungum gleraugum ættu því að huga að því hvort plast geti ekki leyst vandann. Annar kostur plastsins er sá að það brotnar síður en glerið t.d. við að falla á gólf. Það er hinsvegar ókostur að yfirborð þess er töluvert mýkra og því hættara við að rispast. Til að koma í veg fyrir rispur er hægt að meðhöndla plastið á sérstakan hátt og herða það. Þetta getur oft borgað sig.

Það er vandasamt að hreinsa plastgler og aldrei má þurrka burt óhreinindi án þess að skola glerin fyrst. Í gleraugnaverslunum fást sérstök hreinsiefni fyrir plastið. Gleraugu með plastgleri skal ávallt geyma í hulstri en ekki laus í vasa eða tösku.

Breytileg gler

Breytileg gler, öðru nafni Fotocromi gler geta aðlagast birtunni. Þau breyta um lit frá því að vera næstum ólituð innan dyra, í að virka sem sólgleraugu í mikilli birtu og þau eru dekkst í sterkri sól og snjóbirtu. Dekking glerjanna ræðst af magni útfjólublárra geisla. Það getur tekið glerin dálítinn tíma að breyta um lit en tíminn ákvarðast af hita og birtumagni. Það tekur glerin aðeins lengri tíma að lýsast en dökkna.

Þessi gler eru framleidd í flestum styrkleikum og eru dýrari en ólituð gler. Þegar breytileg gler eru valin er gott að hafa í huga að kristallarnir sem breyta glerinu eru bræddir í glerið og því er dekkingin háð þykkt glersins. Bílrúður hleypa ekki í gegn útfjólubláu ljósi og því er litun minni t.d. við akstur.

Ef skipta þarf um annað glerið, getur verið að liturinn í nýja glerinu verði svolítið öðruvísi en í því gamla. Þetta stafar af því að glerið breytir um grunnlit eftir langa notkun.

Sólgler

Ávallt skal gera sömu kröfu til sólgleraugna og annarra gleraugna. Þau þurfa að passa vel á andlitið og glerin þurfa að vera optískt slípuð. Með því er átt að glerið sé framleitt með tilliti til sjónstöðva heilans.

Það ljósmagn sem glerin útiloka er mælt í %. Hindri glerin 75% af birtunni í að ná til augans, þá sleppir það í gegn 25%.

Til eru sérstök polariseruð gler sem útiloka allt endurkast frá láréttum flötum. Þau henta sérstaklega vel fyrir þá sem stunda veiðar eða siglingar. Góð sólgleraugu eru hönnuð þannig að þau útiloka ljós af þeirri bylgjulengd sem er hættuleg auganu, en það eru útfjólubláu geislar sólarinnar (320-400nm). Hægt er að fá útfjólubláa vörn á önnur gleraugu sem og sólgleraugu. Þeir sem nota gleraugu að staðaldri, eiga þess kost að fá sólgleraugu með viðeigandi strykleika. Ekki ætti að nota sólglerugu við akstur í dimmviðri eða myrkri.

Glampafrí gler

Í öllum glerjum endurkastast ákveðið hlutfall þess ljósmagns sem að glerinu koma. Þetta veldur oft óþægilegum skuggum og glýju í augum. Einnig virðast glerin oft gráhvít og stafar það af því að umhverfið speglast í glerjunum. Flestir kannast við vandamálið sem fylgir myndatöku, þar sem augu gleraugnabera sjást ekki sökum glampa. Svona mætti lengi telja. Óþægindi vegna endurkasts og glampa eykst í hlutfalli við stærð og styrkleika glerjanna. Til eru glampafrí sjóngler sem koma að mestu leyti í veg fyrir þessi óþægindi og eru þau framleidd bæði í gleri og plasti. Margir fá það á tilfinninguna að glampafrí gler dragi að sér ryk og óhreinindi en svo er ekki. Það er eingöngu vegna tærleikans sem meira ber á öllum flekkjum og óhreinindum. Þrífið þessi gler á sama hátt og önnur gler, en varist þá að nota skinnklúta. Ef skipta þarf um annað glerið, getur orðið lítilháttar blæbrigðamunur á glerjunum en hann er þó oftast óverulegur.

Les- og vinnugleraugu

Við 40-50 ára aldur kemur í ljós þörf fyrir sérstök gleraugu við nærvinnu sem lestur og skrift.

Þessi gleraugu eru hönnuð þannig að þegar horft er í gegnum þau verður allt skýrt sem er í um 25-50 cm fjarlægt, en beini maður sjóninni að einhverju sem er lengra í burtu þá verður það óskýrt.

Fyrir þá sem einnig þurfa að nota göngugleraugu getur verið óþægilegt að skipta stöðugt um gleraugu þegar líta þarf upp úr nærvinnunni. Til að komast hjá því getur fólk valið milli nokkurra tegunda glerja sem eru þannig hönnuð að með þeim sér notandinn skýrt bæði frá sér og nær.

Hér á eftir fara upplýsingar um tvær algengustu tegundirnar.

Tvískipt gler

Í þessu gleri eru tveir styrkleikar slípaðir saman. Efri hlutinn er ætlaður fyrir fjærsjón en sá neðri fyrir nærsjón. Gera þarf ráð fyrir einhverjum tíma til að venjast þessum glerjum og læra að nota þau en fljótlega hverfur þó sú truflun sem skiptingin veldur og tilfinningin fyrir glerjunum verður eðlileg og án óþæginda. Rétt er þó að taka fram að það er léttara að venjast gleraugunum séu þau notuð stöðugt strax frá byrjun.

Staðsetning glersins í umgjörð er einstaklingsbundin og mikilvægt að sjóntækjafræðingur mæli sérstaklega fyrir þeim. Hafa skal í huga að til eru mismunandi form og stærðir á neðri hluta glerjanna og getur fagfólk hjálpað til við rétt val með tilliti til atvinnu notandans eða annars þess sem gleraugun eru ætluð til.

Tvískipt gler leysa ekki alltaf allan vandann og ekki er óalgengt að önnur gleraugu þurfi til að fullnægja kröfum þínum. Er þá átt við gleraugu fyrir sérstakar vinnufjarlægðir þar sem tvískipt gleraugu duga ekki til.

Margskipt gler (progressiv gler)

Helsti kostur þessara glerja er að þau eru slípuð í heilu lagi án sjáanlegrar skiptingar. Í glerinu er að finna marga styrkleika og unnt er að sjá skýrt í öllum fjarlægðum ef horft er í gegnum viðeigandi hluta þess.

Ókosturinn er hinsvegar sá að vegna þess hversu margir styrkleikar eru í hverju gleri, þá er frekar lítið svæði ætlað fyrir hverja fjarlægð fyrir sig. Einnig þurfa augu og sjónstöðvar heilans að aðlagast nýrri tækni við að horfa rétt í það svæði glersins er svarar til fjarlægðar þess hlutar sem horft er á.

Dæmi: Við lestur þarf að horfa stöðugt gegnum sama hluta glersins en hreyfa höfuðið til hliðar til að fylgja línum. Þegar skipt er frá því að horfa á vissan hlut í fjarlægð yfir í lestur, þá skal halda höfði beinu en renna augunum niður eftir glerinu.

Í byrjun getur þetta virst svolítið flókið en fyrr en varir verða þessar nauðsynlegu augn- og höfuðhreyfingar ómeðvitaðar og eðlilegar. Léttara er að venjast þessum gleraugum ef þau eru notuð stöðugt fyrstu vikurnar.

Gæta þarf vel að vali umgjarðar fyrir margskipt gler og þarf sjóntækjafræðingur að gera nákvæmar mælingar varðandi skiptingu glersins og halla umgjarðar. Hægt er að fá þessi sjóngler bæði úr plasti og gleri, með eða án litar og gefur fagfólk gleraugnaverslana upplýsingar og ráð varðandi þau atriði.

Góð ráð

Bíddu ekki of lengi með að fá þér margskipt gleraugu. Það er léttara að venjast þeim meðan lesstyrkurinn í glerinu er óverulegur. Sýnið aðgát í tröppum og öðrum misfellum því þær geta virst vera í annarri fjarlægð en raun ber vitni. Neðri styrkleiki glersins veldur því að það sem þú sérð virðist nær en það er í raun og veru.

Sjóntækjafræðingar verslananna sjá um að veita allar þær upplýsingar varðandi val á glerjum og umgjörðum. Einnnig að vinna glerin í umgjörðina sem er mikið nákvæmnisverk. Snúðu þér því til þeirra ef þú hefur spurningar varðandi gleraugun þín.

Hvaða árgerð eru gleraugun þín?

Gleraugu eldast líka