Snertilinsur Print Email


Snertilinsur (eitthvað fyrir þig?)

Snertilinsur eru ekki eins og hver önnur vara sem maður kaupir út í búð. Það er mikilvægt að láta skoða augun og ganga úr skugga um að augað þoli þennan aðskotahlut. Ennfremur þarf að mæla stærð og kúptleika augans og skoða hvernig táravökvinn er uppbyggður. Augun eru líffæri sem við viljum ekki vera án og er því mikilvægt að fara í einu og öllu eftir því sem sérfræðingar gefa fyrirmæli um.

Einungis skal láta viðurkenndan sérfræðing mæla og máta snertilinsur í augun. Aðeins sjóntækjafræðingar og augnlæknar með menntun og réttindi til að mæla sjón og máta snertilinsur, hafa heimild til að veita þessa þjónustu.

En hvað á þá að gera ef maður vill fá snertilinsur?

Fyrst þarf að panta tíma hjá þeim aðila sem valinn er og maður er öruggur um að sé sérfræðingur í snertilinsum. Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma þegar maður ætlar að fá linsur í fyrsta skiptið, viðkomandi sérfræðingur gefur upp áætlaðan tíma.

Í tímanum er farið yfir sjónina og síðan er skoðað ytrabyrði augans, metin er táravökvinn og stærð augans mæld. Allt þarf að vera í lagi áður en snertilinsur eru settar í augun. Þegar búið er að ganga úr skugga um það þá eru snertilinsurnar settar í augun. Oft er látið líða smá tími frá því að snertilinsurnar eru settar í augun (en ekki alltaf), þangað til þær eru metnar aftur. Þá er gæta að hvort sjónin sé sem skildi með linsunum og líka til að meta hvort augun hafni snertilinsunum eða ekki.

Eftir þetta er meðhöndlun á snertilinsunum kennd og hvernig á að bregðast við óvæntum atriðum. Brýnt er að fara í öllu eftir þessum leiðbeiningum til þess að forðast óþarfa skaða á augum og mynda auka vandamál.

Eftirlit með snertilinsum

Nauðsynlegt er að fara í reglubundið eftirlit til að forðast vandamál. Oft kemur eitthvað í ljós í eftirliti sem þarf að bregðast við. En með því að fara í reglubundið eftirlit getur maður minnkað verulega líkur á varanlegum skaða. Mætið því ávallt í fyrirskipað eftirlit.

Litaðar Snertilinsur

Því miður hafa margir haldið að ekki þurfi að meðhöndla litaðar snertilinsur á sama hátt og sjónlinsum, en það er mikill misskilningur. Þó að litaðar linsur séu oft einungis notaðar til að breyta augnalit, þá leggjast þær líka þétt að auganu og geta skaðað það. Það er í raun alltof oft röng notkun á þessum snertilinsum. Heyrst hefur af fólki sem hefur jafnvel lánað hvort öðru slíkar snertilinsur. En það er eins og flestir vita greið smitleið fyrir ýmsa sjúkdóma. Að nota notaðar og rangar snertilinsur getur haft skelfilegar afleiðingar.

Snertilinsu tegundir

Flestir hafa heyrt um harðar og mjúkar snertilinsur. Innan þessara linsugerða er hægt að flokka margar tegundir.

Þegar fólk heyrir nefndar harðar snertilinsur, halda flestir að þær séu óþægilegar. En það er ekki rétt, í sumum tilfellum eru það einu snertilinsurnar sem gagnast. Oftast er hægt að segja að rétt mátaðar harðar snertilinsur séu þær sem fara best með augun. Ennfremur eru þær einna bestu snertilinsurnar hvað varða þá sem eru með mikla sjónskekkju. Harðar snertilinsur þarf yfirleit ekki að endurnýja oftar en á árs fresti og jafnvel sjaldnar.

Mjúkar snertilinsur eru þær sem flestir nota í dag. Þægilegt er að meðhöndla þær og flestir eiga létt með að venjast þeim. Margar mismunandi gerðir eru af þessum linsum, velur sérfræðingurinn þær sem hentar hverjum og einum. Flestir nota í dag það sem er kallað skammtíma snertilinsur t.d. mánaðar- eða dagslinsur. Enn eru samt nokkrir sem nota árs snertilinsur. Mjúkar sjónskekkju snertilinsur eru líka til og er framþróun mikil á þeim síðustu árin. Í flestum tilfellum má ekki sofa með snertilinsur, þó eru til tegundir sem eru til þess gerðar, en þá eingöngu undir ströngu eftirliti sérfræðings.

Snertilinsu vökvar.

Margar tegundir eru til og er áríðandi að notaður sé sá vökvi sem er ráðlagður. Ekki er allar snertilinsur sem þola hvaða vökva sem er og augun ekki heldur. Ekki ber heldur að reyna að búa til eigin vökva. Einungis skal nota vökva í eitt skipti, aldrei skal endurnýta vökva. Svo kölluð gervitár er oft gott að nota en þá í samráðum við sérfræðing, oft eru til betri og varanlegri lausnir á vandamálinu.