Lög Print Email

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2006.  Útgáfa 132b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um sjóntækjafræðinga

1984 nr. 17 24. apríl


Ferill málsins á Alþingi.   Frumvarp til laga.

Tóku gildi 4. maí 1984. Breytt með l. 23/1991 (tóku gildi 17. apríl 1991), l. 116/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994; EES-samningurinn: VII. viðauki), l. 76/2002 (tóku gildi 17. maí 2002) og l. 11/2004 (tóku gildi 15. júní 2004).

1. gr. Rétt til þess að kalla sig sjóntækjafræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi heilbrigðismálaráðherra.
2. gr. [[Leyfi skv. 1. gr. skal veita íslenskum ríkisborgurum, ríkisborgurum í öðru aðildarríki EES-samningsins og í Sviss sem lokið hafa prófi frá skólum sem viðurkenndir eru sem slíkir af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í.]1) Leita skal umsagnar prófessorsins í augnlækningum við Háskóla Íslands, félags sjóntækjafræðinga og landlæknis áður en leyfið er veitt.]2)
   
1)L. 76/2002, 12. gr. 2)L. 116/1993, 8. gr.
3. gr. [Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en að því er varðar ríkisfang í öðru aðildarríki EES-samningsins eða í Sviss og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr.]1)
   
1)L. 76/2002, 13. gr.
4. gr. Ráðherra getur veitt íslenskum ríkisborgurum, sem eru í starfi við gildistöku laganna og hafa starfað í 5 ár samfellt, ótakmarkað starfsleyfi að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr.
5. gr. [Sjóntækjafræðingar mæla sjón og fullvinna og selja sjónhjálpartæki (gleraugu og snertilinsur).
Ráðherra skal í reglugerð1) setja ákvæði um menntunarskilyrði sem sjóntækjafræðingar skulu uppfylla til að mega mæla sjón og fullvinna sjónhjálpartæki.
Ráðherra getur í reglugerð1) takmarkað heimildir sjóntækjafræðinga til að mæla sjón hjá nánar tilgreindum hópum.]2)
   
1)Rg. 1043/2004, sbr. 626/2005. 2)L. 11/2004, 1. gr.
6. gr. Óheimilt er að ráða til hvers konar sjóntækjafræðistarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.
7. gr. Sjóntækjafræðingi ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.
8. gr. Sjóntækjafræðingi er skylt að halda dagbók um þá er leita til hans og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis.
9. gr. Um sjóntækjafræðinga gilda að öðru leyti reglur læknalaga, nr. 80/1969.1) Reglur læknalaga gilda um viðurlög við brotum í starfi, sviptingu starfsleyfis og endurveitingu starfsréttinda.
Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
   1)l. 53/1988.
10. gr. Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.
11. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

18. gr.

Lög um sjóntækjafræðinga, nr. 17 24. apríl 1984.
Aftan við 1. málsl. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður er verði 2. málsl. 2. gr., svohljóðandi: Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.

19. gr.

Lög um veitinga- og gististaði, nr. 67 28. júní 1985.
1. og 2. mgr. 2. gr. laganna orðist svo:
Til þess að öðlast leyfi samkvæmt lögum þessum þarf umsækjandi að:

a.

Eiga lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. eitt ár.

b.

Vera fjárráða og hafa forræði á búi sínu.

Leyfi samkvæmt lögum þessum má veita félagi eða öðrum lögaðila sem á heimili hér á landi, enda sé framkvæmdastjóri slíks lögaðila fjárráða og hafi forræði á búi sínu. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í er leyfisveiting þó háð því að fullnægt sé þeim skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Breytingar á lögum um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984, sbr. breytingu nr. 23/1991.

8. gr.

a.

2. gr. laganna orðast svo:
Leyfi skv. 1. gr. skal veita íslenskum ríkisborgurum og ríkisborgurum í EES-ríki sem lokið hafa prófi frá skólum sem viðurkenndir eru sem slíkir af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í. Leita skal umsagnar prófessorsins í augnlækningum við Háskóla Íslands, félags sjóntækjafræðinga og landlæknis áður en leyfið er veitt.

b.

3. gr. laganna orðast svo:
Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur hvorki íslenskt ríkisfang né ríkisfang í EES-ríki og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Breyting á lögum nr. 17/1984, um sjóntækjafræðinga, með síðari breytingum.

12. gr.

1. málsl. 2. gr. laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 116/1993, orðast svo: Leyfi skv. 1. gr. skal veita íslenskum ríkisborgurum, ríkisborgurum í öðru aðildarríki EES-samningsins og í Sviss sem lokið hafa prófi frá skólum sem viðurkenndir eru sem slíkir af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lög um breytingu á lögum um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984.

 

1. gr.

5. gr. laganna orðast svo:
Sjóntækjafræðingar mæla sjón og fullvinna og selja sjónhjálpartæki (gleraugu og snertilinsur).
Ráðherra skal í reglugerð setja ákvæði um menntunarskilyrði sem sjóntækjafræðingar skulu uppfylla til að mega mæla sjón og fullvinna sjónhjálpartæki.
Ráðherra getur í reglugerð takmarkað heimildir sjóntækjafræðinga til að mæla sjón hjá nánar tilgreindum hópum.

2. gr.

Lög þessi öðlast gildi 15. júní 2004.

Samþykkt á Alþingi 8. mars 2004.